153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

aðgerðir varðandi orkuöflun og orkuskipti.

[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í liðinni viku fór fram aðalfundur Landsvirkjunar og iðnþing Samtaka iðnaðarins. Á báðum þessum þingum var kallað eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar varðandi orkuöflun. Ákallið eftir skýrum línum og ákvörðunum var mjög skýrt og það var hátt á báðum þessum samkomum. Forstjóri Landsvirkjunar kallaði eftir skýrum skilaboðum frá stjórnvöldum um orkuöflun og benti einu sinni sem oftar á að orkukerfið núna hjá okkur sé svo gott sem fulllestað og að Landsvirkjun væri nú þegar að hafna verkefnum sem snúa fyrst og síðast að grænni raforku, grænum verkefnum, grænni atvinnustarfsemi. Hæstv. fjármálaráðherra var líka á aðalfundinum og sagði sjálfur að það þyrfti að virkja. Þetta hefur hann reyndar áður sagt en samt gerist ekki neitt. Það gerist heldur ekki eftir að í grænbókinni um orkumál sem kom út fyrir ári síðan, frá trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar, sagði að það þyrfti að senda skýr skilaboð um það hversu mikið þyrfti að auka raforkuframleiðslu næstu tvo áratugi til að ná markmiðum um orkuskipti og grænan hagvöxt. Ríkisstjórnin setti sér fyrir sex árum mjög skýra stefnu um orkuskipti en það gerist ekki neitt. Skilaboðin eru í rauninni engin. Við vitum, og ég vil undirstrika það, að það verður að vera jafnvægi milli náttúruverndar annars vegar og náttúrunýtingar hins vegar. Það versta sem við gerum samfélaginu okkar er að senda út þau skilaboð að það eigi bara að vera hér kyrrstaða, að ríkisstjórnin, út af því hvernig hún er samsett, komi sér ekki saman um það hvernig við ætlum að ýta undir samkeppnishæfni landsins og ekki síst ná fram markmiðum okkar í loftslagsmálum. Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra og forsvarsmanna í þessari ríkisstjórn er því þessi: Hvernig hyggst ríkisstjórnin mæta loftslagsmarkmiðum ef það er engin orka til að ráðast í þessi grænu orkuskipti? (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að rjúfa þessa kyrrstöðu okkar í dag í orkumálum til að ná fram markmiðum okkar um orkuskipti?