153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

loftslagsgjöld á millilandaflug.

[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil hér við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra er varðar yfirvofandi loftslagsgjöld á millilandaflug. Eins og nokkur umræða hefur verið um undanfarið er þetta svokallaða Fit for 55-prógramm Evrópusambandsins nú að nálgast innleiðingu, hún verður um næstu áramót. Það blasir við að ef ekki fæst undanþága hvað þetta regluverk Evrópusambandsins varðar þá mun það hafa gríðarleg áhrif hér innan lands á atvinnustarfsemi, hvort sem það er ferðaþjónustan eða til að mynda útflutningur á ferskum fiski. Það verða fáar tær á Tene ef fram heldur sem horfir með þeirri spá sem fyrir liggur um áhrif á framboð af millilandaflugi. Áhrifin á innlendu flugfélögin eru álitin alveg geigvænleg og Ísland sem tengimiðstöð verður ekki meir ef allt fer á versta veg.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort framkvæmt hafi verið mat á vegum ráðuneytisins á þeim áhrifum sem innleiðing regluverksins kann að hafa, gangi það fram með þeim hætti sem Evrópusambandið stillir því upp. Hér hefur verið sagt frá því í þinginu að ráðherrar og embættismenn á þeirra vegum hafi haldið rúmlega 100 fundi til að tala fyrir sjónarmiðum Íslands í þessu máli. En árangurinn virðist enn sem komið er hafa verið mjög lítill. Í ljósi þess að innleiðingin á að eiga sér stað 1. janúar næstkomandi verður maður að ætla að reiknað sé með því að Alþingi klári sína aðkomu að málinu núna fyrir þinglok. Ef svo er ekki væri áhugavert að fá að vita það.

En mig langar í þessu ljósi að spyrja hæstv. ráðherra sömuleiðis þeirrar spurningar hvort hann sé tilbúinn að gefa út afstöðu sína í þá veru að ef viðhlítandi og nauðsynlegar undanþágur fást ekki þá verði þetta regluverk ekki innleitt á Íslandi. Því verði bara einfaldlega hafnað. Það á ekki við. Þetta regluverk gengur út á það að troða fólki, sem vill ferðast með flugvél, í járnbrautarlest. Hér eru engar slíkar.