153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

loftslagsgjöld á millilandaflug.

[15:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem er í sjálfu sér ekki á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins heldur er það hjá innviðaráðherra og eftir atvikum hjá utanríkisráðuneytinu, eins og fram kom. Engu að síður þá hef ég verið upplýstur um útlínur málsins og hef tekið eftir fréttaflutningi og viðbrögðum markaðsaðila sem þetta myndi snerta sérstaklega. Ég held að það sé algjör einhugur í ríkisstjórninni um það að við munum ekki samþykkja fyrir okkar leyti að regluverk fari inn í EES-samninginn sem gerir út af við alþjóðaflugið eins og það hefur verið byggt upp á Íslandi. Það kemur ekki til greina. Það verður ekki með samþykki okkar að Evrópska efnahagssvæðið verði sérsniðið að þörfum annarra og ekki tekið tillit til sjálfsagðra og eðlilegra athugasemda og sérkrafna okkar Íslendinga. Það er þess vegna sem er líka mikilvægt að við höfum þann vettvang sem hefur verið skapaður, sameiginlegu nefndina, þar sem við getum stöðvað mál, staldrað við og bent á að við getum ekki fellt okkur við útfærsluna án þess að sameiginlega nefndin og EFTA, EES-ríkin og ESB-ríkin mætist. Þetta fyrirkomulag er einmitt til þess að við getum gætt okkar hagsmuna snemma. Í sögunni hefur oft orðið misbrestur á að við værum vakandi yfir regluverki sem væri á leiðinni inn í EES-samninginn og gæti komið okkur í koll síðar. Stundum höfum við komið of seint að málum og við höfum jafnvel þurft að takast harkalega á um það hvernig ætti með að fara hér í þinginu en í þetta skipti er málið ekki komið inn í EES-samninginn og hefur ekki verið samþykkt af okkar hálfu. (Forseti hringir.) Ég tel að við eigum að halda því þannig þar til að viðunandi niðurstaða fæst.