Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Fyrir okkur sem hrærumst í veröld skoðanakannana er alltaf dálítið svekkjandi, ja eða auðmýkjandi, að fá könnun á því hvaða stofnana Íslendingar bera mest traust til. Þar trónir Landhelgisgæslan alltaf langefst, 90% Íslendinga treysta fólkinu í Gæslunni sem er vakið og sofið í að tryggja öryggi sjófarenda og landsmanna allra. Því miður endurspeglast þetta traust almennings ekki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það endurspeglast ekki í þeim fjármunum sem er varið til þessarar lífsnauðsynlegu grunnþjónustu. Svo koma inn á milli einhverjar furðufréttir, eitthvað sem enginn skilur almennilega í, eins og gerðist núna í febrúar þegar dómsmálaráðherra kom með þá frumlegu hugmynd að styrkja rekstur Gæslunnar með því að selja undan henni flugvél. Sex vikum eftir samþykkt fjárlaga hér á þingi þá datt ráðherranum í hug að besta leiðin til að efla Gæsluna væri að taka einu flugvélina frá henni þannig að hún gæti ekki sinnt nauðsynlegri leit og eftirliti á flugstjórnarsvæði Íslands t.d., þannig að hún gæti ekki fylgst með náttúruhamförum, sem hún er sérútbúin til að fylgjast með, þannig að hún gæti ekki vaktað mögulega mengun á sjónum. Sem betur fer virðist ráðherrann hafa verið gerður afturreka með þessa dómadagsvitleysu. En þetta leiðir auðvitað hugann að því að það hefur mjög lengi verið skert eftirlits- og viðbragðsgeta á Íslandi með flugvél vegna þess að út af þröngri fjárhagsstöðu Gæslunnar hefur hún neyðst til að drýgja tekjurnar með því að leigja hana í verkefni á vegum Frontex. Stóran hluta ársins hefur þessi vél hvort eð er ekkert verið hér á landi, gott ef ráðherra notaði það ekki sem eina af tylliástæðunum fyrir að losa sig við vélina.

En af hverju er staðan svona? Jú, hluti af ástæðunni er auðvitað að fólkið sem notar þjónustuna, stórútgerðin, greiðir ekki til samfélagsins það sem þarf til að halda þessari þjónustu úti. Í dag eru þau veiðigjöld sem sjávarútvegurinn borgar það lág að þau duga ekki til að dekka kostnað við Fiskistofu, hafrannsóknir eða löggæsluhluta Landhelgisgæslunnar. Þetta er náttúrlega ótrúleg staðreynd og eitthvað sem hlaut ekki nógu mikla athygli í afgreiðslu fjárlaga síðasta haust. Þetta leiðir til áralangs fjársveltis sem birtist bæði í skorti á tækjabúnaði en líka mönnun vegna þess að eina leiðin til að halda skipaflota á sjó allt árið, eina leiðin til að vera með þyrlur til taks allt árið er að það sé fólk á svæðinu til að sitja í þessum tækjum, stýra þeim og bjarga fólki.

Það kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn hér fyrir jól að um 65% ársins væru tvær þyrluáhafnir á bakvakt, ríflega þriðjung ársins væri ein áhöfn tiltæk. Þetta hefði snarbatnaði eftir að áhöfnum var fjölgað úr fimm í sex fyrir tæplega tveimur árum og núna gerist það mjög sjaldan að engin áhöfn sé tiltæk til að stökkva í útkall. Það gerist samt. Í alvöru, það gerist að það er ekki ein áhöfn á svæðinu til að stökkva upp og bjarga fólki. Þetta er ekki bara stórmál fyrir fólkið sem stólar á það öryggi sem Landhelgisgæslan veitir. Þetta hlýtur líka að vera lýjandi fyrir starfsfólkið í þessari stöðu. Getur þú verið í alvörufríi ef þú veist að mögulega verði kallað í þig vegna þess að það er ekki búið að tryggja fjármuni til að það sé starfsfólk til að sinna grunnþjónustunni? Fólk er alltaf með þetta á bak við eyrað, myndi maður halda.

Svo fengum við skýrslu frá Ríkisendurskoðun fyrir ári sem ráðherra virðist ekki mikið hafa lært af. Þar er bent á að drög að landhelgisgæsluáætlun verði að teljast óraunhæf í ljósi þess að það sem Gæslan segir að þurfi og það sem ríkisstjórnin er tilbúin til að skammta bara stenst engan veginn, það munar miklu. — Dettur þá tíminn niður. Fyrirgefið, forseti. Þetta er svo stuttur tími. —

Mig langar að spyrja ráðherrann þriggja, fjögurra spurninga, bara grunnspurninga um rekstur Gæslunnar. Í fyrsta lagi: Telur hann að svo sé búið um Gæsluna að björgunargeta hennar sé í samræmi við þörf? Í öðru lagi: Hvernig hefur björgunargeta Landhelgisgæslunnar þróast með tilliti til mönnunar og tækjabúnaðar á undanförnum árum? Í þriðja lagi: Hvaða langtímaáætlanir (Forseti hringir.) eru til staðar um kaup á skipakosti og flugförum fyrir Gæsluna næstu áratugi? Þessi tæki eru dýr og þau eru rekin áratugum saman og þess vegna þarf langtímasýn. Hvaða þarfagreining býr þar að baki, ólíkt því sem var þegar ráðherrann ætlaði að skutla TF-SIF úr landi?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)