Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Í landhelgisgæsluáætlun fyrir árin 2018–2022 var m.a. viðbragðsgeta stofnunarinnar skilgreind út frá faglegum viðmiðum um lífslíkur fólks. Í áætluninni var farið yfir hvaða tækjakostur og mannaflaþörf sé nauðsynleg til að halda úti þeim viðmiðum sem sett voru fram. Síðan hefur verið leitast við að vinna að þeim markmiðum landhelgisgæsluáætlunar í fjármálaáætlun eins og fjárveitingar hafa leyft hverju sinni. Það þarf að horfa til miklu fleiri þátta þegar horft er til björgunargetu á Íslandi heldur en bara til Landhelgisgæslunnar vegna þess að Landhelgisgæslan er bara eitt hjól undir þeim vagni sem kemur að leit og björgun.

Það er staðreynd að geta Gæslunnar og geta björgunaraðila á Íslandi hefur aldrei í sögunni verið eins öflug og hún er í dag. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur aldrei verið eins öflugur. Þegar sagt er að í störfum ríkisstjórnarinnar endurspeglist áhersluleysi á þennan málaflokk þá er nú skemmst að minnast þess að það er búið að kaupa hér nýlega nýtt varðskip sem er gríðarlega öflug viðbót við Gæsluna þannig að nú búum við yfir tveimur öflugum varðskipum sem eru með gríðarlega mikla dráttargetu. Það er líka búið að endursetja staðsetningar varðskipanna þannig að nú er ekki heimahöfnin í Reykjavík heldur líka á Siglufirði og það er fyrirhugað að flytja Þór suður í Njarðvík eða Keflavík. Það er allt gert til þess að mæta þessum sjónarmiðum. Þyrlukostur Gæslunnar hefur aldrei verið eins öflugur, gríðarlega öflugar vélar og drjúgar og geta sinnt störfum við mjög erfiðar aðstæður.

Við erum líka að efla okkur víðar og þá má ekki gleyma þætti Landsbjargar þegar kemur að björgunargetu bæði á sjó og landi. Ríkisstjórnin er núna að fara að undirrita samning við Landsbjörg um endurnýjun á 13 stórum björgunarskipum. Fyrsta skipið, Þór, er komið til Vestmannaeyja. Næsta skip kemur í lok þessa mánaðar til Siglufjarðar og innan fimm ára þá verða komin 13 ný öflug björgunarskip, smíðuð í Finnlandi, og þau hafa auðvitað gríðarlega mikla getu, hafa mikið farsvið og mikinn hraða, geta farið á allt að 30 mílum og tekið nærsvæðið og eru í nánu samstarfi við Landhelgisgæsluna þegar kemur að leit og björgun á sjó. Síðan er ný tækni sem þarf að taka til skoðunar alveg sérstaklega og er að þróast og sem m.a. Landhelgisgæslan hefur verið að þróa, en það eru drónar. Landhelgisgæslan hefur verið með öfluga dróna og björgunarsveitirnar eru með öfluga dróna sem sinna orðið æ meira hlutverki þegar kemur að leit.

Við þurfum að horfa til þessara þátta í framtíðinni og það er á grundvelli þess sem ég setti alveg sérstakan starfshóp sérfræðinga til starfa með Gæslunni á síðasta ári og ég vænti skýrslu frá þeim núna á þessu ári. Þar erum við líka að leita hagræðingar í rekstri vegna þess að það er líka hægt að hagræða í rekstri hjá Landhelgisgæslunni eins og víðast hvar annars staðar og við erum að skoða það alveg sérstaklega. Það kemur m.a. að þeirri flugvél sem hér var nefnd og hefur ekki verið til notkunar mikið á Íslandi á undanförnum árum, m.a. vegna þess að hún hefur verið notuð í landamærasamstarfi Frontex í Evrópu. Nágrannaþjóðir okkar fara til að mynda aðrar leiðir í þeim rekstri. Norðmenn, Danir, Bretar, Svíar hafa boðið út þennan rekstur og eru með mjög hagkvæmar vélar í þessu sem eru nútímalegar, þær hafa meiri fluggetu, getum við sagt, heldur en TF-SIF hefur og eru með nútímabúnað og geta sinnt þessum störfum.

Þessa þætti þurfum við að skoða alla í stóra samhenginu í senn til að gæta allrar hagkvæmni í rekstri Gæslunnar en um leið að standa vörð um leitar- og björgunargetu og viðbragðsgetu Gæslunnar sem og annarra björgunaraðila í landinu og horfa á það í samspili þegar við horfum til framtíðar í því hvernig við ætlum að fjárfesta og hvar við eigum að fjárfesta í björgunarbúnaði.

Við búum við þær mjög sérstöku aðstæður á Íslandi að alveg ótrúlega stór hluti af grunnalmannavarnakerfi landsins byggir á öflugum sjálfboðaliðasveitum sem hafa gegnt mjög veigamiklu hlutverki, (Forseti hringir.) eru grunnstoð almannavarnakerfisins þegar kemur að slíkum aðgerðum. Það þarf að taka þá starfsemi inn í þessa framtíðarsýn, hvernig þetta getur spilað saman, (Forseti hringir.) þannig að við séum að veita sem besta þjónustu bæði gagnvart þeim sem eru á sjó og á landi.