Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu sem sendar voru hv. fjárlaganefnd hefur Landhelgisgæslan ekki náð að halda uppi viðunandi öryggis- og þjónustustigi frá brotthvarfi varnarliðsins árið 2006. Það er pólitísk ákvörðun að hafa það með þeim hætti að vanfjármagna Landhelgisgæslu Íslands með þeim hætti að stofnunin er undirmönnuð og þarf að leigja frá sér nauðsynleg öryggistæki, grunnstoð Gæslunnar, TF-SIF, sem hæstv. dómsmálaráðherra ætlaði reyndar að selja í upphafi árs. Já, Landhelgisgæsla Íslands, sem er sú stofnun, sem framkvæmir alþjóðlegar skyldur Íslands varðandi öryggi við og í kringum Ísland, er svo vanfjármögnuð að árum saman, a.m.k. frá því að úttekt fór fram á starfseminni árið 2015, hefur reksturinn verið undir ásættanlegu öryggis- og þjónustustigi. Frá því að skýrslan kom út hafa verið lagðar til ýmsar breytingar svo við gætum staðið við okkar skuldbindingar. En þessu var öllu slegið á frest ef marka má minnisblað dómsmálaráðuneytisins. Þetta var bara slegið út af borðinu og þar við situr. Áfram getum við ekki sinnt lágmarksöryggigæslu. Hæstv. ráðherra kemur hérna og vísar í sjálfboðaliða björgunarsveitanna, sem eru vissulega mjög öflugir. En er það fullnægjandi? Til að bíta höfuðið af skömminni eru flugmenn Landhelgisgæslunnar enn án samninga eftir áralangt þref við stjórnvöld.

Herra forseti. Þessi vanræksla er pólitísk ákvörðun, ekki eins heldur fimm dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratug sem og fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Meginhlutverki Landhelgisgæslunnar, sem er eftirlit með efnahagslögsögunni og veiðum innan og utan hennar, er þannig ekki sinnt sem skyldi.