Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:32]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu í þingsal, hún er afar mikilvæg. Ég ætla aðeins að nálgast hana út frá landsbyggðarvinklinum og byrja á að lýsa yfir ánægju minni með að varðskipið Freyja sé staðsett úti á landi, þ.e. á Siglufirði, því að það skiptir máli að hafa varðskip á fleiri en einum stað á landinu til þess að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland, en við sem búum á landsbyggðinni erum meðvituð um hversu langan tíma það tekur fyrir björgunaraðila að komast út á land.

Staðreyndin er sú að þyrlur úr Reykjavík geta ekki sinnt bráðatilvikum þegar komið er lengra út á landsbyggðina, hvað þá út á haf, t.d. norður og austur fyrir landið. Heildarviðbragðstími er í því samhengi of langur og samkvæmt mínum upplýsingum margfalt lengri en það sem gengur og gerist í Noregi, Finnlandi og Danmörku. Þá mun kerfið okkar vera mun vanmáttugra en hjá öðrum þjóðum sem við eigum það til að miða okkur við.

Á sama tíma er rík krafa í samfélaginu um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli. Sökum þess hve fá við erum og byggðin dreifð er þetta göfuga markmið langsótt. Það getur skipt sköpum að lífsbjargandi meðferð sé rétt og skjót strax í upphafi, en lífsbjargandi meðferð hefur allt að segja um áframhaldandi bata sjúklings. Sú sem hér stendur telur afar mikilvægt að hugað sé að því í fullri alvöru að staðsetja þyrlu á Norðausturlandi sem gæti bæði nýst sem sjúkraþyrla og jafnvel björgunarþyrla.

Síðastliðið haust sendi ég fyrirspurn á hæstv. ráðherra um hvort hann hefði fyrirætlanir um að staðsetja eina þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Samkvæmt svari ráðherra væri kostnaður við slíka ráðstöfun um 1 milljarður, en ráðherra sagði einnig að stýrihópur um framtíðarlausn vegna björgunarþyrlna (Forseti hringir.) fyrir Landhelgisgæsluna væri að störfum til þess að finna lausnir. Hæstv. ráðherra fór yfir það rétt áðan og það verður áhugavert að fylgjast með þeirri vinnu, því að þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægt að við stöndum vörð um leit og björgunargetu á landinu öllu.