Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:35]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Fyrst vil ég þakka málshefjanda fyrir að setja þetta lífsnauðsynlega mál hér á dagskrá og sömuleiðis svör ráðherra, sem ég varð þó fyrir örlitlum vonbrigðum með eins og ég mun fara yfir. Það að halda úti björgunarþjónustu er einn af grunnþáttum í því að halda uppi öryggisgæslu fyrir þjóðina, að sinna sæfarendum — það ætti að vera þáttur í sjálfsvirðingu þjóðarinnar að sinna hér eðlilegri björgunarþjónustu og gera það sómasamlega. Það fer ekki saman að þjóð, sem sendir núna hvern ráðherrann á fætur öðrum inn í mitt stríðsástand í Kænugarði, geti síðan ekki haldið úti landhelgisgæslu. Það hlýtur að vera hægt að forgangsraða með öðrum hætti. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur einfaldlega fram að það er svo langt í að þau viðmið sem eru sett varðandi björgunargetu Gæslunnar náist, mjög langt.

Hvernig er brugðist við? Það er ekki brugðist við með því að setja aukna fjármuni í tækjakost að neinu ráði til að ná raunverulega þessum markmiðum. Nei, ráin er lækkuð. Þau viðmið eru lækkuð sem menn ætla að hafa hvað varðar björgunargetu þjóðarinnar. Þetta sýnir auðvitað forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Þessi atriði sem snúa að lífsnauðsynlegum þáttum eru sett neðar og á meðan er ríkisstjórnin að eyða hér gríðarlegum fjármunum, m.a. í að byggja einhverjar hallir fyrir Landsbankann, ríkisbanka, og svo má segja að hvert gæluverkefnið af öðru rekur hér upp á borð Alþingis og fær flýtimeðferð á meðan Landhelgisgæslan er látin sitja á hakanum.