Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt hér í dag á því að segja, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að björgun og leit er fjölbreytt og er sinnt af mjög mörgum. Þau hlutverk sem við ætlum Landhelgisgæslunni eru líka margvísleg og lúta m.a. að því að tryggja vöktun landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sinna löggæslu á hafi sem og leitar- og björgunarþjónustu á 2 ferkílómetra hafsvæði vegna atvika tengdum bæði flugi og sjó. Þá sinnir Gæslan eftirliti með fiskveiðum, bæði á grunnslóð og á hafi úti ásamt ýmsu öðru eftirliti þeim tengdum og enn eru ótalin ýmis önnur stór verkefni, m.a. þau sem varða alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar þar að lútandi. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið sögð að það er mikilvægt að hafa varðskip úti á landi, á Siglufirði, og það er líka mikilvægt að við staðsetjum þyrlur víðar. Við þurfum að tryggja stofnuninni það fjármagn sem hún þarf til að halda uppi viðunandi öryggis- og þjónustustigi en í nýlegri skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum frá því í desember síðastliðinn kemur m.a. fram að geta Landhelgisgæslunnar til að halda uppi eftirliti um efnahagslögsöguna og landhelgina og vegna náttúruhamfara sé takmarkað þegar flugvélin TF-SIF er ekki á landinu og ekkert skip tiltækt til vöktunar. Vélin er, eins og alþjóð varð kunnugt um fyrr í vetur, mikið í útleigu hjá Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex, og hefur það jafnframt verið stærsti sértekjuliður Landhelgisgæslunnar.

Virðulegi forseti. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum Gæslunnar frá því í febrúar 2022 kemur fram að 62% heildarflugsstunda vélarinnar hafi verið vegna leigu erlendis. Þetta er umhugsunarvert en mikilvægt er að halda á lofti að Ísland hefur jú ákveðnar skuldbindingar gagnvart Frontex og er þessi ráðstöfun vélarinnar ásamt skipum og áhöfnum hluti af þeirri eftirlitsskyldu. Þarna er því ákveðin úlfakreppa þar sem fjarvera vélarinnar dregur úr getu Gæslunnar til að sinna ákveðnum hlutverkum en uppfyllir svo önnur á sama tíma. Á þessu þurfum við að finna lausn. Ég mun koma að fleiri þáttum málsins í seinni ræðu minni hér á eftir.