Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:39]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Við búum á eyju og við búum á virkri eldstöð í Norður-Atlantshafi og ég held að við skiljum öll hversu mikilvæg Landhelgisgæslan er fyrir öryggi íbúa landsins, fyrir sjómennina okkar og fyrir allt það fólk sem heimsækir Ísland, fyrir leit, fyrir björgun og fyrir eftirlit á þeim sögulegu tímum sem við lifum nú. Engu að síður ekki er ekki nema rúmur mánuður síðan hæstv. dómsmálaráðherra skrifaði bréf þar sem hann fyrirskipaði að selja skyldi eftirlitsflugvél Gæslunnar. Það var ákvörðun sem sumir töluðu um sem þaulskipulagðan leikþátt til að afla aukins fjár. Það gerði reyndar mest samflokksfólk ráðherrans sjálfs. En þetta fyrirskipaði hann um vél sem er ein af mikilvægustu einingum viðbragðskeðju Gæslunnar og þessi sala hefði vitaskuld valdið mikilli afturför í viðbragðs- og eftirlitsskyldu þjóðarinnar allrar. Með þessa ákvörðun var hæstv. ráðherra sem betur fer rekinn til baka. Ég hef í sjálfu sér ekki séð upplýsingar um að hér hafi verið um leikþátt að ræða en ég veit samt ekki hvort er verra; að þykjast ætla að selja vélina, vegna þess að hann kaus að veita okkur í fjárlaganefnd ekki fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu Gæslunnar, nefndi ekki einu orði í fjárlagavinnu hvaða samskipti höfðu farið á milli Gæslunnar og dómsmálaráðuneytisins — eða er verra að taka ákvörðun um sölu sem myndi draga verulega úr viðbragðsgetu Gæslunnar, gera það þá raunverulega, án þess að eiga um það samtal í fjárlaganefnd, ekki við utanríkismálanefnd og aldrei hér inni í þingsal? Hvorugt lítur vel út fyrir hæstv. ráðherra því að hér er um þjóðaröryggismál að ræða og Landhelgisgæslan er í grundvallarhlutverki í varnarmálum og öryggismálum landsins.

Ég myndi kannski vilja ljúka þessu á því, af því að ég sit í fjárlaganefnd og mér var svo gróflega (Forseti hringir.) misboðið yfir þessari framkomu ráðherra, að spyrja hann að því (Forseti hringir.) hvernig hann sér fyrir sér fjármögnun Gæslunnar til lengri tíma litið og hvort við megum búast við hreinskilni (Forseti hringir.) í framsögu hans í hagsmunagæslu þar um. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)