Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í framsögu sinni segir dómsmálaráðherra að viðbragðsgeta Gæslunnar hafa bara aldrei verið meiri. En er það satt? Landamæraeftirlit um borð í skipum í íslenskri lögsögu? Í fjármálaáætlun 2019 segir að það hafi engin skoðun verið árið 2017. Það var engin skoðun árið 2019 og það var engin skoðun árið 2021. Björgunarþjónusta með varðskipi innan 24 klukkutíma? Nei, staðan 2017 var 48 klukkutímar en áttu að vera 24 klukkutímar árið 2023. Hvernig var hún síðan 2019? Enn þá 48 tímar. Hvernig er hún síðan 2021? Enn þá 48 klukkustundir.

Hvað með fjölda skyndiskoðana um borð í skipum innan efnahagslögsögunnar? 200 árið 2017, 258 árið 2019 — viðbót, frábært — og 74 árið 2021.

Hvað með björgunarþjónustu með flugvél innan leitar- og björgunarsvæðis sem er möguleg innan sex klukkustunda? 57% ársins 2017 og staðan átti að vera 95% árið 2023. Það var markmiðið í fjármálaáætlun 2019. Hvernig þróaðist það? Árið 2019 var staðan orðin 20% — úr 57% niður í 20%. Og hver er nýjasta staðan sem við erum með, árið 2021? 8,4%. Þetta er það sem hæstv. ráðherra kallar viðbragðsgetu sem hefur aldrei verið meiri. Þetta er fáránlegt.

Ein betrumbót hefur orðið og það er í liðnum björgunarþjónusta með þyrlu. Hún var aðgengileg innan sex klukkustunda 40% ársins 2017, 53% ársins 2019 og svo 55% ársins 2021, en átti samkvæmt fjármálaáætlun að vera orðin 100%, allt árið. Kannski er þetta eina tölfræðin sem er betrumbót af því að ráðherrar hafa verið að fljúga svo mikið (Forseti hringir.) með þyrlum Landhelgisgæslunnar. Kannski eru það þessi aukaprósent, hver veit? (Forseti hringir.) Kannski ættu þau bara að sigla meira með Landhelgisgæsluskipunum eða fljúga með TF-SIF (Forseti hringir.) til að fá upp tölfræðina sína.

Staðan er ekki þannig að hún hafi aldrei verið betri.