Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:51]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan sinnir mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Verkefnin eru fjölmörg en þau miða öll að því að stuðla að öryggi allra þeirra sem staðsettir eru á Íslandsmiðum og flytja fólk til nauðsynlegra staða þegar brýn þörf er á. Við treystum á Landhelgisgæsluna þegar á bjátar. Hún verður einnig að geta treyst á okkur. Það liggur fyrir að verkefni eru á döfinni sem þarf að leysa svo starfsemi Landhelgisgæslunnar geti verið sem best. Það er öryggismál að starfsemi Gæslunnar gangi án fyrirstöðu og að festa sé í málefnum mannauðsins.

Flugmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið kjarasamningslausir allt of lengi. Það er grafalvarlegt mál. Flugmennirnir hafa nú þegar lýst yfir töluverðum áhyggjum af stöðunni og er kominn tími á að binda enda á samningsleysi og óviðunandi starfsaðstæður flugmanna Landhelgisgæslunnar, enda er um að ræða einstaklinga sem sinna mikilvægum flugferðum. Einnig þarf að tryggja viðunandi viðbragðstíma þyrlna á vegum stofnunarinnar og Gæslan gerir sitt allra besta með það sem þau hafa. Hagkvæmasta og skilvirkasta leiðin til að bæta lögbundið sjúkraflug og leitar- og björgunarþjónustu Landhelgisgæslunnar er að auka fjárveitingar til að styrkja rekstur þeirra öflugu þyrlna og flugvéla sem nú þegar eru til staðar. Það er gert með því að stytta viðhaldstíma til að halda tveimur vélum gangandi hverju sinni með fjölgun flugvirkja. Viðbragðstíma má einnig stytta með fjölgun flugáhafna til að mögulegt sé að setja viðveru vakt á flugvelli. Með því má einnig auka viðverutíma björgunarþyrlna á landsbyggðinni. Það er stutt í sumar en við munum sjá hér gríðarlega fjölgun ferðamanna og eins og við vitum þá eykur það álag á Landhelgisgæsluna til muna. Það er grundvallaratriði að styrkja grunnstoðirnar með ásættanlegum rekstri öflugra björgunarþyrlna sem geta sinnt verkefnum í hvaða veðri sem er, hvert á land sem er.