Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það verður ekki litið fram hjá því að aukin umsvif og aukið hlutverk Gæslunnar hafa um langt skeið leitt til þess að Landhelgisgæslan á erfitt með að halda uppi viðunandi öryggis- og þjónustustigi. Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn frá fjárlaganefnd 10. febrúar sl. kemur fram m.a. að rekstur vegna flugfara sé kostnaðarsamur og hafi vaxið á kostnað varðskipa. Þetta hafi m.a. leitt til þess að meginhlutverk Landhelgisgæslunnar, sem er eftirlit með efnahagslögsögunni og veiðum innan og utan hennar, verði ekki sinnt sem skyldi. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs, sem ég vék að í fyrri ræðu minni, er fjallað um aukna skipaumferð vegna komu skemmtiferðaskipa og miðað við bókanir verður fjölgunin enn meiri á þessu ári. Í því samhengi má horfa til t.d. einhverrar sérstakrar gjaldtöku enda fylgir þessum komum skemmtiferðaskipa aukið álag á umhverfið og eftirlit á hafi. Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá 2022, sem ég nefndi hér áðan, var lagt til að skilgreina, með leyfi forseta, „með afdráttarlausum og hlutlægum hætti öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands og marka viðbúnaðargetu hennar bæði skýr og raunhæf viðmið“. Á grundvelli þeirra markmiða þurfi svo „að festa í sessi langtímafjárfestingaráætlun um tækjakost stofnunarinnar sem þolir tímabundna ágjöf í efnahag ríkissjóðs“. Undir þetta get ég tekið og tel mikilvægt að við búum þannig um hnútana að þessi lykilstofnun geti sinnt hlutverki sínu.

Að lokum vil ég segja að vegna fjárlagaársins í ár hækkuðu gjaldaheimildir Landhelgisgæslunnar um 600 millj. kr. í meðförum fjárlaganefndar. Mestu munar um 370 millj. kr. til að mæta auknum eldsneytiskostnaði vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs en sömuleiðis fara 103 milljónir til endurnýjunar nauðsynlegs búnaðar fyrir tækjakost Landhelgisgæslunnar. Með þessum auknu fjárheimildum töldum við nefndarmenn í fjárlaganefnd okkur vera að stuðla að og tryggja óbreyttan rekstur. Ég tel að Landhelgisgæslan eigi ekki að þurfa að grípa til sérstakra drastískra aðgerða til að aðlaga reksturinn að fjárheimildum. Hann þurfum við að tryggja og það þarf að gerast í fjármálaáætlun enda um afar mikilvæga innviði að ræða (Forseti hringir.) í öryggis- og hagsmunagæslu fyrir land og þjóð og ég trúi því og treysti að ráðherraráð um ríkisfjármál styðji ráðherrann í þessum efnum.