Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:58]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Landhelgisgæslan rekur björgunarþyrlur sem hún notar m.a. til að sinna aðkallandi sjúkraflutningum. Vandinn er að áhafnirnar eru á bakvöktum og útkallstíminn er mun lengri en best væri á kosið. Við búum í strjálbýlu landi og lengi hefur aðgengi landsbyggðarfólks að sjúkrahúsþjónustu verið óboðlegt. Þegar alvarleg slys verða fjarri byggð er ræstur út sjúkrabíll sem keyrir með hina slösuðu að næsta nothæfa flugvelli. Þangað kemur sjúkraflugvél sem flýgur með fólk til Reykjavíkur. Það sem skiptir mestu er að stytta tímann frá slysi og þar til fólk er komið undir hendur einhvers sem getur veitt fyrstu hjálp. Sá tími sem það tekur að keyra frá næsta þéttbýlisstað og að slysstað skiptir því miklu máli. Ef slys verður fjarri vegum er þyrlan ræst út og er biðtíminn þá yfirleitt lengri.

Árið 2017 skilaði fagráð sjúkraflutninga skýrslu um sjúkraflutninga með þyrlum. Í henni var bent á að á hinum Norðurlöndunum og víðar í Evrópu er notast við sérstakar þriggja manna sjúkraþyrlur sem henta vel til flutninga á bráðveikum sjúklingum yfir lengri vegalengdir eða þegar þörf er á sérhæfðri aðstoð á vettvangi. Tillaga var um að þyrlur verði í auknum mæli notaðar til sjúkraflutninga til að styrkja viðbragð í dreifbýli og flýta flutningi á sjúkrahús. Því alvarlegra sem slysið er og því fjær Reykjavík eða flugvelli sem útkallið er, því meira er gagnið af sjúkraflugi með þyrlu. Það er bæði vegna skjótari flutnings en ekki síður vegna sérhæfðrar þjálfunar áhafnarinnar. Ávinningurinn er augljós en svo virðist sem lítið hafi verið gert með tillögur skýrslunnar. Ég legg því til að hæstv. ráðherrar dómsmála og heilbrigðismála dusti rykið af henni og taki öryggi og heilbrigði landsbyggðarfólks af fullri alvöru.