Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[17:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er annað sem mig langar að koma inn á hér í umræðunni í dag. Það er að Háskólinn á Akureyri fékk nýverið úthlutað styrk frá Rannís til að finna góðar og sanngjarnar staðsetningar fyrir þyrlur til sjúkraflutninga á Íslandi þar sem heildarflutningstími sjúkraflugs hér á landi er oft of langur. Munu niðurstöðurnar geta gefið fyrirheit um hvernig best sé að mæta þessum þörfum um jafnvel bækistöðvar fyrir þyrlur og mæta þannig þörfum samfélagsins sem og að bæta aðstæður mikið veikra og slasaðra sjúklinga. Það er mikilvægt. Staðan núna er því miður þannig að aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu er misskipt eftir landshlutum. Þó svo að markmið rannsóknarinnar sé að kanna hvar best sé að staðsetja þyrlur þá breytir það því ekki að við munum einnig þurfa á sérstökum flugvélum til sjúkraflutninga að halda. Ég nefni þetta hér þar sem ég sá í úttekt sem Landhelgisgæslan gerði 23. febrúar 2022 að hún hefði hug á því að koma meira að sjúkraflugi með þyrlum og flugvélum. Mér finnst í rauninni að við hér og við sem samfélag ættum að hugsa betur um þetta, að það mætti jafnvel setja fram einhvers konar áætlun um hvernig á að ná fram þessum markmiðum sem Landhelgisgæslan hefur sjálf sett svo veglega og vel fram.