Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[17:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við náum að vera í megindráttum öll sammála í þessum sal en mér heyrist við öll úr öllum flokkum hafa náð að tala um mikilvægi þess að standa vörð um björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Þó það nú væri. Hvers vegna er staðan þá eins og hún er í dag? Við heyrðum hv. formann fjárlaganefndar tala um að þau hefðu í góðri trú talið sig vera að tryggja óbreyttan rekstur Gæslunnar við afgreiðslu fjárlaga í desember. Svo kemur ráðherrann sex vikum seinna og það var bara allt í járnum. Fyrst hélt ég að þarna hefði ráðherrann kannski verið í einhverjum vísvitandi blekkingarleik gagnvart þinginu, hefði verið að halda einhverjum upplýsingum frá þinginu. En eftir að hafa hlustað á svör hæstv. ráðherra hér í þessari umræðu þá held ég að honum sé bara sama. Ég fæ ekki séð að ráðherrann brenni sérstaklega fyrir þessum rekstri. Þegar hann er spurður um björgunargetu Landhelgisgæslunnar þá fer hann allt í einu að svara einhverju um dróna og Landsbjörgu, segir að Gæslan sé bara eitt hjól undir einhverjum vagni og við megum ekki einblína of mikið á hana. Hvað kemur í staðinn fyrir varðskip? Hvað kemur í staðinn fyrir björgunarþyrlu? Hvað kemur í staðinn fyrir TF-SIF? Það er ekkert annað í boði en að styrkja þennan rekstur. Þó svo að það sé fínt að Landsbjörg fái báta til að sinna sinni þjónustu og það sé örugglega fínt að skoða aukna notkun dróna þá geta þeir ekki varpað björgunarskipum lengst úti í hafi til fólks í sjávarháska. Og þó að það sé frábært að búið sé að kaupa nýtt varðskip þá vantar annað. Það þarf strax að kaupa nýtt vegna þess að landhelgisgæsluáætlun gerir ráð fyrir þremur skipum. Þau eru tvö. Ráðherrann er að varpa fókus einhvern veginn úti um allt víða sviðið frekar en að horfast bara í augu við það sem mér heyrist við hin flest vera sammála um. Það þarf fólk og það þarf tæki. (Forseti hringir.) Það þarf að standa vörð um Landhelgisgæsluna. (Forseti hringir.) Eftir tvær vikur fáum við hingað fjármálaáætlun til fimm ára og þar getum við sýnt í verki hvort við meinum það sem við erum að segja hérna í dag. (Forseti hringir.) Ég er sérstaklega að horfa þar á stjórnarliða (Forseti hringir.) sem geta ekki bara lofað öllu fögru í sérstakri umræðu en síðan ekki skilað neinu þegar kemur að því að tryggja fjármuni.