153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Háskólinn í Reykjavík framkvæmdi rannsókn árið 2022 sem byggði á svörum 64.000 ungmenna sem höfðu svarað spurningum Rannsókna og greiningar frá árinu 2018–2022. Niðurstöður Háskólans í Reykjavík voru vægast sagt sláandi þar sem aukið þunglyndi og vanlíðan er viðvarandi hjá þessum ungmennahópi þrátt fyrir að áhrif faraldursins hafi farið dvínandi árið 2022. Þetta eru alls ekki góðar fréttir og vekja mann til umhugsunar hvort nóg sé gert til þess að grípa ungmennin okkar. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu gegnir lykilhlutverki og á tímum Covid varð rof í félagslegum tengslum, sem eru okkur öllum nauðsynleg. Þess vegna er mikilvægt að við tökum alvarlega á þessum niðurstöðum. Nú þegar búið er að afnema þær hömlur sem settar voru þegar faraldurinn gekk yfir virðist sem áfengisneysla ungmenna sé orðin sú sama og fyrir faraldurinn, en það sem einnig er áhyggjuefni er að ungmennin finna fyrir aukinni vanlíðan. Við því þarf að bregðast með öllum tiltækum ráðum. Nú vona ég að heilbrigðisráðherra, og í raun öll ríkisstjórnin, taki þessari könnun mjög alvarlega og líti fram á við og gefi okkur einhver fyrirheit um það hvað hægt er að gera til að koma til móts við þessa auknu vanlíðan ungmenna.