153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Öllum er það löngu ljóst að ríkið eitt nær ekki að sinna liðskiptaaðgerðum. Biðlistar lengjast sífellt og staðreyndin er að um 1.800 manns eru á biðlista eftir þeim aðgerðum. Allt of lengi hefur verið spyrnt við fótum við að leita til sérfræðilækna á einkareknum stofum eins og gert er í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Hver er nú niðurstaðan? Sjúkratryggingar Íslands óskuðu eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði. Með þeirri aðferðafræði sést glögglega gríðarlegur sparnaður fyrir ríkið. Samkvæmt reglugerð nr. 801/2022 fær Landspítalinn greiddar tæpar 2 milljónir fyrir hverja liðskiptaaðgerð á mjöðm, sem er 623.000 meira en einkareknu stofurnar fá fyrir þá aðgerð. Fyrir hverja liðskiptaaðgerð á hné fær Landspítalinn greiddar rúmar 2 milljónir sem er um 883.000 meira fyrir þá aðgerð en einkareknu stofurnar fá. Já, manni er bara brugðið við þessar tölur því að ég tel þessa aðferðafræði vera borðleggjandi eftir þetta. Þessar 1.800 liðskiptaaðgerðir á vegum Landspítalans kosta því um 3,7 milljarða, en með því að fá þjónustuna hjá einkafyrirtækjum kosta þær um 2,5 milljarða. Þarna standa út af 1,2 milljarðar í beinan sparnað.

Hér sjáum við glöggt að hægt er að veita sömu þjónustu og tæma biðlista fyrir margfalt minni fjárhæðir. Um leið skapast svigrúm fyrir Landspítalann til að sinna betur öðrum aðgerðum og þjónustu sem honum ber að veita. Þessi vegferð bætir því heilsu okkar allra, styttir biðlistana og við förum betur með fjármuni ríkisins. Síðast en ekki síst nýtum við mun betur þjónustu lækna okkar sem hafa tileinkað stóran hluta starfsævi sinnar því að sérmennta sig til að geta veitt okkur hinum afbragðsþjónustu hér á landi. Við eigum að fagna hvoru tveggja, hvort sem læknar kjósa að reka sínar stofur sjálfir eða vinna innan Landspítalans. Þannig löðum við að okkur sérmenntað fagfólk til landsins sem sannarlega er skortur á, bæði innan heilbrigðiskerfisins og á öllum sviðum samfélagsins.