153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á mjög svo mikilvægri umræðu sem ég tel að við hér á þinginu verðum að taka, en það er hratt versnandi geðheilbrigði unga fólksins okkar og þá sérstaklega ungra stúlkna. Í sjónvarpi um síðustu helgi vakti Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, sérfræðingur í menntamálum, athygli á því hvað geðheilbrigði ungs fólks fer hrakandi og nefndi í því sambandi samhengið við samfélagsmiðla og áhrif þeirra á líðan ungs fólks. Hjá unga fólkinu okkar sjáum við merki um gríðarlega aukningu þunglyndis, aukinn kvíða, aukinn sjálfsskaða og fjölgun sjálfsvíga. Þetta eru staðreyndir og við því verður að bregðast.

Börn á aldrinum 8–10 ára eru að meðaltali um fjóra til sex klukkutíma á dag á skjámiðlum. Unglingar eru níu klukkustundir á dag á skjámiðlum. Þetta eru sláandi tölur um notkun. Árið 2014 töldu 81% barna og unglinga andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Á síðasta ári var þetta hlutfall komið undir 60%. Á síðasta ári sögðust 27% stúlkna í tíunda bekk vera ánægðar með líf sitt en nokkrum árum áður sögðust 40% stúlkna í tíunda bekk vera ánægðar með líf sitt. Á síðustu árum hefur lyfjanotkun barna og unglinga sömuleiðis verið í veldisvexti. Nú er svo komið að yfir 3.000 börn eru að taka róandi lyf og svefnlyf á hverjum tíma hér á landi. Rannsóknir sýna að þessi mikla skjánotkun og þá sérstaklega samfélagsmiðlanotkun hefur orðið marktæk áhrif á líðan fólks. Áhrif samfélagsmiðla á líðan fólks er orðið að alvarlegu samfélagsvandamáli.

Ég vil að lokum gera orð Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur að mínum, er hún segir að hér vanti samfélagslegan sáttmála í þessum efnum.