153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar í fáeinum orðum að fjalla um þetta mál, breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, gjaldmiðlaáhætta og upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Þetta er stórt og mikið mál og var til umfjöllunar á síðasta þingi. Ég áttaði mig nú reyndar aldrei á því af hverju þetta tiltekna mál fór ekki í gegn á því þingi því að það var ekkert sem lagðist gegn því að við gætum klárað það. Einhverjar ástæður lágu væntanlega að baki því að málið var dregið til baka. Ég held þó að það hefði flogið í gegnum þingið ef tekin hefði verið ákvörðun um að fara með það alla leið.

Ég er með á þessu nefndaráliti og ég styð þau skref sem verið er að stíga með framlagningu frumvarpsins og þau eru mjög mikilvæg. Þó vil ég benda á að skrefin sem verið er að stíga hér voru ekki alveg í sátt við lífeyrissjóðina sjálfa sem óskuðu eftir því að taka stærri og hraðari skref, gera þetta á styttri tíma og í stærri stökkum. Þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var talað um að gera þetta á 15 árum, að auka heimildir lífeyrissjóða til erlendrar fjárfestingar úr 50% í 65% eða 1% á ári. Lífeyrissjóðirnir vildu fá að breyta því í 3% á ári en á það var ekki fallist. Það eru ástæður fyrir því sem ég kem kannski inn á seinna. En það var þó horft til sjónarmiða lífeyrissjóðanna og sú breyting er orðin á frumvarpinu að fyrstu fjögur árin, held ég að það sé, fá lífeyrissjóðirnir heimildir til þess að fjárfesta fyrir 1,5% og það auðvitað hjálpar til.

Síðan er verið að breyta því, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, í kafla 3, 2. lið, að lífeyrissjóður þurfi ekki að bregðast við ef gjaldmiðlaáhætta hans fer yfir leyfileg mörk sökum breytinga á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkana á erlendum eignamörkuðum en á meðan það ástand varir verði honum óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína með kaupum á eignum í erlendum gjaldmiðlum. Þannig er það núna að lífeyrissjóðirnir þorðu aldrei að fara upp í 50% markið sem er búið að vera í 20 ár eins, alltaf 50%. Ef þeir fóru í 50% markið og krónan féll þá urðu þeir selja. Þannig var það og þannig er það. Ef krónan féll þá voru lífeyrissjóðirnir farnir að fjárfesta, þó að þeir hafi ekki gert neitt, í fleiri íslenskum krónum og það gerði að verkum að lífeyrissjóðirnir þurftu að selja af erlendum eignum þrátt fyrir að það hefði kannski haft áhrif á ávöxtun þeirra.

En núna er verið að breyta þessu með ákvæði sem er skýrt þarna í lið 2, sem ég las hér áðan, þannig að lífeyrissjóðirnir þurfa ekki að selja. Þá geta þeir í raun og veru fært sig nær 50% markinu eða því sem verður í framhaldinu 65% að lokum. Þeir þorðu aldrei að gera það, margir lífeyrissjóðir voru kannski bara í 35% eða 40%, af því að þeir voru nervusir út af þessari stöðu gagnvart íslensku krónunni. Þannig að þetta er til bóta og eykur möguleika lífeyrissjóðanna til að fjárfesta meira.

Síðan er hér ákvæði sem er auðvitað bara varúðarákvæði sem skiptir líka miklu máli til þess að tryggja það að lífeyrissjóðir geti staðið við sínar skuldbindingar gagnvart lífeyristökum, þ.e. að þeir séu með innlendar eignir fyrir a.m.k. þriggja ára útgreiðslum og séu þá ekki að offra með þá fjármuni annars staðar.

Fjórði liðurinn hérna snýr að afleiðusamningum sem ég er ekki góður í en eru fyrst og fremst hugsaðir til gengisvarna. En vegna þess hvernig það var fært gerði það lífeyrissjóðunum erfitt fyrir. Þetta á kannski að auka möguleika þeirra til að bregðast við og geta keypt sér eða fjárfest í einhvers konar gengisvörnum. Allt þetta er til bóta þó að ekki hafi verið farið alla leið í þessu eða þá leið sem lífeyrissjóðirnir vildu fara.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna eru lífeyrissjóðirnir að þrýsta á þetta? Það kemur fram ágætlega í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að það er verið að setja ákveðin markmið. Ef ég fæ að lesa, herra forseti, það sem segir í kafla 6, um mat á áhrifum:

„Tillögur um að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum hafa fyrst og fremst þá þýðingu fyrir hagkerfið að lífeyrisbyrði flyst til og dregið er úr ruðningsáhrifum í þjóðarbúinu. Með auknum fjárfestingum erlendis flyst lífeyrisbyrði framtíðarinnar frá starfandi fólki hér á landi til starfandi fólks í þeim ríkjum þar sem fjárfest er. Með ruðningsáhrifum er átt við að þvinguð þörf lífeyrissjóða fyrir fjárfestingar í innlendum eignum geti hækkað virði eignanna og lækkað ávöxtun þeirra og þannig spillt fyrir öðrum fjárfestum og reyndar lífeyrissjóðunum sjálfum. Þessi þrýstingur minnkar með auknum heimildum til fjárfestinga erlendis.“

Þetta skiptir okkur miklu máli. Ég held að það sé talað um að fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna sé u.þ.b. 400 milljarðar á ári, sem eru stórar upphæðir, svona í einhverju samhengi, að lífeyrissjóðirnir séu það stórir að þeir þurfi að fjárfesta fyrir 400 milljarða á hverju ári. Það mun auðvitað vaxa af því að það er búið að auka inngreiðslur í lífeyrissjóðina með auknu framlagi frá vinnuveitendum sem mun gera þessa fjárfestingarþörf þeirra meiri til lengri tíma. Ég held að það sé talað um það í greinargerðinni einhvers staðar að lífeyrissjóðirnir muni halda áfram að vaxa alveg til ársins 2060. Það mun vera mikil þörf til fjárfestinga fyrir lífeyrissjóðina því að auðvitað ber þeim að koma sínum fjármunum í vinnu og alltaf betra ef ávöxtunin verður meiri en 2,5% eins og einhver markmið eru til staðar um og það mun bara bæta hag þeirra lífeyrisþega sem eiga eignir í sjóðunum.

En hvað er að því að lífeyrissjóðir séu að fjárfesta innan lands? Er ekki allt í lagi að lífeyrissjóðir fjárfesti hérna innan lands? Jú, það getur vel verið upp að vissu marki ágætt að lífeyrissjóðir séu bakhjarlar. Þrátt fyrir að þeir hafi í hruninu verið í talsverðum erfiðleikum þá voru þeir þátttakendur í endurreisn atvinnulífsins með þátttöku í að setja fjármuni inn í fyrirtæki sem þurftu svo sannarlega á því að halda, gátu þá haldið áfram rekstri og skaffað atvinnu og veitt okkur þá þjónustu sem við þurftum. Lífeyrissjóðirnir skipta miklu máli. Síðan eru þessi ruðningsáhrif sem oft er talað um. Ég man eftir því þegar var verið að ræða Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma, þá var talað um þau ruðningsáhrif sem Kárahnjúkavirkjun gat haft vegna þess að hún sogaði til sín vinnuafl og önnur fyrirtæki gátu bara ekkert verið til staðar af því að allir fóru að vinna í Kárahnjúkavirkjun. Ruðningsáhrif lífeyrissjóða með 400 milljarða fjárfestingarþörf geta verið umtalsverð. Þeir þurfa að fjárfesta í, segjum bara einhvers konar eignum í samkeppni við aðra aðila, þeir fjárfesta á hlutabréfamarkaði í samkeppni við aðra aðila. Og hvaða þýðingu getur það haft? Það býr til eftirspurn sem mælir kannski í raun og veru ekki virði þeirra fyrirtækja eða hlutabréfa sem þeir eru að fjárfesta í því að þeir neyðast til að yfirbjóða, neyðast til að koma peningunum sínum í vinnu. Þetta getur auðvitað haft einhver „spin“-áhrif á t.d. hlutabréfamarkaði sem geta síðan valdið miklum erfiðleikum fyrir aðra til að taka þátt í slíkum markaði. Og svo þegar þeir fara síðan út úr þeim markaði getur það valdið miklu falli. Það skiptir miklu máli.

Þessi breyting, eins og ég sagði í upphafi, skiptir máli. En auðvitað finnst mér sem Viðreisnarmanni, sem stuðningsmanni þess að við skoðum einhvers konar þátttöku í annars konar gjaldmiðlaumhverfi, skrýtið að þegar við erum að ræða um starfsemi lífeyrissjóða að við séum á sama tíma að ræða um einhverja gjaldmiðlaáhættu. Mér finnst það sérstakt. Við getum verið að sjá lífeyrissjóð sem ákveður að fara með peninga erlendis fella krónuna okkar. Það er svolítið skrýtið að búa í slíku umhverfi að lífeyrissjóðirnir skuli þurfa að vera einhver dempari á gjaldmiðilinn sem við notum. Það getur í raun og veru komið í veg fyrir ávöxtun sem lífeyrissjóðirnir myndu vilja ná fram. Mér finnst það vera sérstakt að við þurfum að nota lífeyrissjóðina sem einhvers konar hækju fyrir íslensku krónuna.

Að því sögðu þá finnst mér ánægjulegt, að við séum að stíga þessi skref núna í dag og ég reikna með því að við klárum þetta mál fljótt og vel og séum ekki að dvelja lengi við það af því að það skiptir auðvitað máli fyrir lífeyrissjóðina að koma sínu fjármagni í vinnu og það skiptir máli að þeir séu ekki að hafa truflandi áhrif á markaði innan lands. Það skiptir líka máli að það sé verið að breyta þessum reglum um að þeir þurfi ekki að selja þrátt fyrir að krónan falli. En þeir mega heldur ekki kaupa á meðan. Það er kannski eitt af því sem getur verið snúið, þeir mega ekki kaupa á meðan. Það getur gert það að verkum að þeir missa af fjárfestingartækifærm. Þeir eru kannski komnir upp í mörkin og svo fellur krónan og þá eru þeir bara stopp, mega ekki gera neitt.

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég er ánægður með að málið sé komið hingað til þingsins og vona að við klárum það fljótt og vel.