153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 10. þm. Suðurk., Guðbrandi Einarssyni, fyrir sína ræðu. Ég er með vangaveltur sem ég vil beina til hv. þingmanns því að ég veit að hann hefur starfað í áratugi fyrir launþegahreyfinguna á Íslandi og þar með hefur hann haft aðkomu að starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég geri ráð fyrir því að hann sé ánægður með það kerfi sem hér er við lýði og stoltur að hafa átt þátt í því að koma því svona vel á laggirnar. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni að hér sé verið að nota lífeyrissjóðina sem hækju fyrir íslensku krónuna, alls ekki, heldur vil ég miklu fremur spyrja hv. þingmann, þar sem við vitum að lífeyrissjóðirnir eru fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi, hvort það sé ekki jákvætt að þeir séu að fjárfesta hér á landi og nýta fé sjóðanna til uppbyggingar atvinnulífs sem og innviða til hagsbóta fyrir okkur Íslendinga. Og þessi mikla fjárfestingarþörf sem er vissulega innan kerfisins og hv. þingmaður nefndi, mun það ekki létta verulega á kerfinu okkar hér, íslensku fjármálakerfi, að sjóðirnir fái þessar auknu heimildir til fjárfestinga erlendis?