153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að árétta það við hv. þm. Guðbrand Einarsson að einn stærsti fjárfestir í heimi er norski olíusjóðurinn og það er sjálfstæð mynt í Noregi. Þar eru reglurnar þannig að þeir verða að fjárfesta nánast að öllu leyti erlendis og það hefur ekki vafist fyrir þeim að stýra þeim fjárfestingum þannig að það hefur ekki teflt norsku krónunni í tvísýnu nema síður sé.

Mig langar sömuleiðis aðeins að fá að nefna það við hv. þingmann að hér erum við að gera breytingu varðandi rafræna birtingu. Nú höfum við á Íslandi tvisvar sinnum tekið þátt í úttekt á Mercer-vísitölunni sem kölluð er, sem er samræmd vísitala lífeyrissjóðakerfa að ég held hátt í 70 þjóða ef ekki fleiri. Í fyrsta sinn sem við tókum þátt í þessu vorum við í topp þremur sætunum og á síðasta ári vorum við í fyrsta sæti. Það sem var ábótavant í þessari úttekt snerist um það hversu litlar upplýsingar nýir sjóðfélagar fá frá kerfinu. Þessi flokkun Mercer- vísitölunnar nær til sjálfbærni, nægjanleika og heilinda. Ísland var í fyrsta sæti í tveimur fyrrnefndu flokkunum árið 2021 en í sjöunda sæti þegar kom að heilindum og það varðar að mestu þá upplýsingagjöf sem veitt er til nýrra sjóðfélaga, þar hafi skort á. Hér er gerð tilraun til að bæta úr því, m.a. með því að setja þá skyldu á lífeyrissjóðina að upplýsa nýja sjóðfélaga um réttindi sín. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji þetta ekki til mikilla bóta.