153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við áttum okkur alveg á því undir hvaða dagskrárlið þessi fundur eru boðaður, en settum ríkisendurskoðanda er væntanlega boðið vegna þeirrar vinnu sem hann vann. Hann skilaði af sér þeirri vinnu með greinargerð sem hann skilaði til þingsins. Þegar hann gerði það og þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók að sér umfjöllun um skýrslu ríkisendurskoðanda þá var honum tjáð að hann mætti ekki tjá sig um efni greinargerðarinnar vegna þess að sumir þættir hennar væru bundnir trúnaði. Þegar hann óskaði svo eftir skýringum frá skrifstofu þingsins og hvaða þættir það væru sem væru bundnir trúnaði í greinargerð, sem hann sem settur ríkisendurskoðandi sendi þinginu, fengust engin svör. Ég fæ ekki séð að neitt hafi breyst í þeirri stöðu. Settur ríkisendurskoðandi er enn í þeirri stöðu að hann hefur ekki fengið svör frá skrifstofu þingsins eða forseta þingsins um það hvað það er sem á að heita svona mikið leyndarmál í þessari greinargerð, sem er augljóslega gagnið sem er undir (Forseti hringir.) þegar settur ríkisendurskoðandi kemur á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, (Forseti hringir.) opinn fund þar sem ekki má ræða vinnu setts ríkisendurskoðanda.