153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:48]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vona að það verði ekki þannig í framtíðinni að þingheimur fari almennt á taugum þótt boðaður sé opinn fundur í einhverri nefnd, í þessu tilfelli um Lindarhvol, eins og mér sýnist vera hér, að það er einhver ákveðin taugaveiklun sem ég skil ekki af hverju er. En alltaf upplifir maður eitthvað nýtt.

Mér finnst menn fara dálítið létt í gegnum það að við skulum ekki standa t.d. vörð um andmælarétt þeirra sem eru til skoðunar eða sæta skoðun hjá Ríkisendurskoðun, en þeir nutu ekki þess andmælaréttar við vinnu setts ríkisendurskoðanda enda vannst honum ekki tími til þar sem hann óskaði eftir lausn þar sem vanhæfi skipaðs ríkisendurskoðanda var lokið. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að skýrsla ríkisendurskoðanda um Lindarhvol hefur verið birt. Og nú tekur (Forseti hringir.) stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til við vinnu við það plagg og önnur þau sem þarf (Forseti hringir.) í efnislegri meðferð og menn þurfa ekkert að hræðast það þó að allir þeir ríkisendurskoðendur sem hafa komið að málinu (Forseti hringir.) komi fyrir nefndina og svari þeim spurningum sem þeir verða spurðir. (Forseti hringir.) Sumum spurningum geta þeir ekki svarað. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist, herra forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar það sem áður var sagt, að þingmenn hafa takmarkaðan tíma til að tala í umræðum um fundarstjórn forseta og breytir engu þó að þeir tali hægt.) [Hlátur í þingsal.]