153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:59]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur tekið mjög langan tíma í þinginu og það má segja að í þessu máli endurspeglist grundvallarágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það hvað felst í vernd. En staðan er sú að við erum að samþykkja vernd fyrir mjög stóran hóp. Við erum daglega að vinna í því að finna húsnæði og bæta aðstöðu þeirra sem eru hingað komin og fá vernd eða eru að sækja um vernd. Þetta er viðkvæmt mál um viðkvæman hóp sem er í erfiðri stöðu og við þurfum að gæta að því að við sjáum vel um þau sem koma hingað.

Hér eru líka margir sem koma sem þurfa ekki á vernd að halda, heldur þyrftu að sækja um annað úrræði en sækja samt um verndina. Stór hluti umræðunnar í nefndinni og hér í þingsal hefur fjallað um þann hóp. Við höfum haldið 15 fundi. Við höfum fengið gesti og við höfum rætt þetta afskaplega mikið í nefndinni. Ég vil þakka nefndarmönnum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnuna og sérstaklega meiri hlutanum. Ég mun styðja þetta mál.