153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:02]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Útlendingafrumvarpið snýst ekki um pólitíska leiki. Það snýst ekki um hvað við Píratar viljum. Það snýst ekki um að Píratar vilji vera með vesen vegna þess að við erum í andstöðu. Þetta snýst bara alls ekki um það. Þetta snýst um að standa vörð um mannréttindi. Það snýst um að standa vörð um stjórnarskrárvarin réttindi. Ekki hefur verið gefið leyfi til að fá óháð mat á því að þetta frumvarp standist stjórnarskrá. Svo furðulega sem það hljómar erum við á þeim stað að ríkisstjórnin verður ekki við beiðni um að tryggja að hér sé ekki verið að brjóta á réttindum flóttafólks, sem eru einstaklingar í mjög viðkvæmri stöðu. Ekki nóg með það, hér er einnig verið að setja inn ákvæði um að rýra réttindi barna til meðferðar ef einhver tengdur þeim veldur töfum. Það, herra forseti, er mikil afturför í réttindabaráttu barna. Ég get alls ekki samþykkt það að skerða réttindi barna á nokkurn hátt og aðrir ættu heldur ekki að gera það.