153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:16]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Skilvirkni. Því er haldið fram að þetta frumvarp snúist um skilvirkni. Er það skilvirkni að henda fólkinu sem stendur hérna fyrir utan í örvæntingu yfir því sem er að gerast hérna inni, á götuna? Svipta þau þeirri grátlega litlu þjónustu og aðstoð sem þau þó fá í þeirri hrikalega viðkvæmu stöðu sem þau eru í nú þegar? Er það skilvirkni að láta börn líða fyrir athafnir annarra og aftengja með því tímafresti sem stjórnvöld hafa til að afgreiða mál, tryggja það að börn verði hér árum saman án þess að fá niðurstöðu í máli sínu? Er það skilvirkni? Nei, þetta snýst ekkert um skilvirkni. Þetta er ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjunum. Þetta frumvarp er ekki í samræmi við stjórnarskrá. Hæstv. dómsmálaráðherra segir satt um eitt. Það er að þessu frumvarpi er ætlað að senda skilaboð. Það er tilgangurinn og markmiðið með þessu frumvarpi, með þessum lögum, að senda skilaboð til flóttafólks um allan heim: Þið eruð ekki velkomin. Við trúum ykkur ekki. Farið eitthvert annað. Það er það sem þetta frumvarp gengur út á.