153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þetta ákvæði frumvarpsins, 2. gr., gengur út á það að afnema möguleika fólks til að ákveða sjálft hvort það ætli að kæra mál eða ekki. Þetta mun sannarlega ekki auka skilvirkni í stjórnsýslunni vegna þess að þetta mun leiða til þess að mál sem viðkomandi ætlar sér ekkert að kæra, hann ætlar að fylgja ákvörðuninni, er sjálfkrafa kært til kærunefndar útlendingamála. Tilgangurinn með þessu er að stytta málsmeðferðartímann um eina viku með því að svipta umsækjanda einni viku í undirbúning kærunnar. Þetta hefur verið gagnrýnt. Þetta lítur sakleysislega út ef maður horfir á það en hefur hins vegar verið gagnrýnt af mörgum umsagnaraðilum og Rauði krossinn á Íslandi gerði jafnvel breytingartillögu sem var mjög hógvær: Færið greinargerðarfrestinn upp í 21 dag ef þið ætlið að gera þetta svona. Var hægt að verða við því? Nei, það var ekki hægt að verða við því. Þetta er vond breyting. Hún er óþörf, hún rýrir rétt fólks, hún bætir ekki skilvirkni. Ég segi já við breytingartillögu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um að fella þetta ákvæði úr frumvarpinu.