153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. 7. gr. frumvarpsins er að mínu mati ein sú skaðlegasta. Ranglega kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé að einhverri evrópskri fyrirmynd og í samræmi við Evrópureglugerðir. Svo er ekki. Þar er verið að vísa til ákvæða um endurteknar umsóknir, sem eru sannarlega í Evrópureglugerðum og tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Hins vegar er verið að flækja þarna inn í því sem kallast beiðni um endurupptöku, sem er þegar einstaklingur óskar eftir því að röng ákvörðun verði leiðrétt vegna breyttra forsendna eða nýrra gagna. Þetta er mjög alvarleg breyting. Hún skerðir réttarvernd flóttafólks verulega, og hver er ástæðan fyrir þessari breytingu? Jú, það eru svo mörg mál endurupptekin. Það er svo mikið af flóttafólki að vinna málin sín í endurupptökuferli og þá þarf bara að gjöra svo vel að afnema þennan rétt og kasta þeim úr landi til þess að þau geti ekki fengið ranga ákvörðun leiðrétta.

Við leggjum til að þetta verði fellt brott úr frumvarpinu. Ég hvet öll hér inni til að styðja þessa breytingartillögu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar vegna þess að þessi breyting eykur ekki skilvirkni nema á kostnað réttinda fólks. (Forseti hringir.) Þetta er mjög alvarleg breyting. Hún er ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í aðildarríkjum okkar. Tilgangurinn er sá að gera fólki enn erfiðara að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég segi já.