153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er lagt til að svipta eigi fólk húsnæði, aðgangi að heilbrigðisþjónustu og aðgangi að þeim litlu styrkjum sem þau fá, sem eru um 8.000 kr. á viku, ef þau hafa ekki yfirgefið landið, burt séð frá því hvort þau hafi eitthvað um það að segja hvort þau geti yfirgefið landið eða ekki. Þessu ákvæði fylgir, og ég vil árétta þetta, annað ákvæði. Það er í 8. gr. þessa frumvarps þar sem lagt er til að Útlendingastofnun fái heimild til að meta það sem svo að flóttamaður sem staddur er hér á landi eigi bara að fara eitthvert allt annað heldur en að vera á Íslandi. Og ef Útlendingastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að flóttamaður eigi að vera einhvers staðar alls staðar annars staðar þar sem hann hefur ekki rétt til dvalar og þangað sem er ekki hægt að flytja hann, þá er hægt að beita þessu ákvæði til að reyna að svelta hann til að fara þangað sem Útlendingastofnun finnst að hann eigi að fara, burt séð frá því hvort viðkomandi hafi rétt til dvalar þar, burt séð frá því hvort viðkomandi geti yfir höfuð ferðast þangað. (Forseti hringir.) Þetta er viðbjóðslega ómannúðlegt ákvæði. Ég segi já.