153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er verið að leggja til að endurtekin umsókn verði skilgreind með þeim hætti að það teljist endurtekin umsókn þegar útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd leggur fram frekari gögn í máli sínu. Þetta á að heita endurtekin umsókn samkvæmt þessari skilgreiningu. Hér er hlutum snúið á haus og gengið í berhögg við stjórnsýslulög. Það er ekki endurtekin umsókn ef umsækjandi leggur fram frekari gögn í máli sínu. Mögulega er verið að reyna að vísa í beiðni um endurupptöku. Það er allt annar hlutur og hér er verið að rugla þessu tvennu saman. Það er mjög slæmt, virðulegi forseti, vegna þess að hér er líka verið að gera atlögu að réttaröryggi okkar allra með því að setja þessa skilgreiningu í lögin, sem gengur þvert á skilgreiningu stjórnsýsluréttarins.