153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Samkvæmt núgildandi lögum er hægt að synja fólki um dvalarleyfi á grundvelli ríkisfangsleysis ef viðkomandi nýtur í rauninni ríkisfangsréttinda í öðru ríki. Hvað er verið að gera með þessari breytingu í frumvarpinu? Það er verið að víkka út heimildir stjórnvalda til að synja fólki sem er ríkisfangslaust og vísa því eitthvert með því að minnka skilyrðin sem gerð eru til þeirra ríkja sem hægt er að vísa til. Hvaða tilgangi þjónar þetta? Synja kannski einhverjum fjórum, fimm Palestínumönnum á ári sem hægt er að vísa til Jórdaníu eða Líbanon þar sem þeir njóta nánast engra borgaralegra réttinda? Það er tilgangurinn. Er það skilvirkni? Nei. Mun það leysa úr þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir? Nei. Hver er tilgangurinn? Hann er einfaldlega sá að við tryggjum það að við séum ekki að gera gramminu meira en við þurfum nauðsynlega að gera samkvæmt alþjóðasamningum og senda flóttafólki þau skilaboð að það sé ekki velkomið. Ég segi já við því að fella þetta brott.