153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Stjórnvöld stæra sig af því að berjast gegn ríkisfangsleysi í heiminum. Samt er á öðrum stað í þessu frumvarpi stillt upp kerfi sem mun fjölga ríkisfangslausum börnum sem fæðast í heiminum með því að fjölga í hópi þeirra sem eru í því sem Rauði krossinn kallar „umborna dvöl“ hér á landi. Í því ákvæði sem hér er lagt til að fella brott er síðan verið að þvo hendur íslenska ríkisins af ábyrgð þess að gæta réttinda fólks í þessari stöðu. Það er verið að auðvelda Íslandi að skutla frá sér fólki sem ekki nýtur ríkisborgararéttar í öðrum löndum. Viljum við ekki standa við það að Ísland sé að berjast gegn ríkisfangsleysi í heiminum? Ef við meinum það í alvöru þá stöndum við með þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir um að fella brott þetta ákvæði.