153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er um ívilnandi ákvæði að ræða. Ég átta mig á því að þetta er flókið. En þegar við tökum á móti kvótaflóttafólki þá er það oft þannig, því miður, að fjölskyldur hafa sundrast. Oft er það þannig að eiginmennirnir eru taldir af eða týndir í flóttamannabúðum. Þegar svo þessir einstaklingar finnast og eru á lífi, þegar það fagnaðarefni gerist, þá tryggjum við þeim með þessu ákvæði sömu vernd og fjölskyldunni sem er þegar komin, sömu vernd og viðkomandi aðilar hefðu fengið hefðu þeir verið til staðar þegar íslensk stjórnvöld buðu þeim til landsins. Í dag fengju þeir dvalarleyfi á forsendum fjölskyldusameiningar. Eftir að við samþykkjum þetta fá þeir full réttindi með verndinni. Þetta er ívilnandi ákvæði. Þetta kemur ekki í veg fyrir sameiningar samkynhneigðs fólks því að enn er hægt að sækja um dvalarleyfi á forsendum fjölskyldusameiningar.