153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við fengum fundi með ráðuneytinu í miðri 2. umr. til að spyrja mjög ítarlega út í hinn ýmsa skilning á hinum ýmsu greinum þessa frumvarps til að reyna að ná sameiginlegum skilningi. Það virtist vera mikill munur á því hvernig við skildum ætlunina með þessari grein. Hvað þessa grein varðar spurðum við mjög skýrt og greinilega: Getur sú staða komið upp að hinseginn flóttamaður, það þarf svo sem ekki einu sinni að vera hinseginn flóttamaður, lendi í því að geta ekki fengið fjölskyldusameiningu vegna þess að einstaklingarnir giftust í raun eftir að hann var búinn að fá já-merkið? Svarið var rosa skýrt já frá ráðuneytinu. Það er sem sagt þessi glufa þarna sem gæti undanskilið sérstaklega hinsegin fólk sem yfirleitt má ekki giftast í upprunaríkinu, hefur ekki lagaheimild til þess, gæti kannski gert það á leiðinni í gegnum Þýskaland eða eitthvað svoleiðis til að viðhalda sambandi sínu.(Forseti hringir.) En þessi breyting undanskilur nákvæmlega þetta og það var rosalega skýrt í svari ráðuneytisins að þetta er glufa.