153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. 8. gr. frumvarpsins snýst um breytingar á 36. gr. laga um útlendinga sem fjallar um heimildir til þess að vísa frá umsókn um alþjóðlega vernd. Það má gera ef einstaklingur hefur þegar fengið vernd í öðru ríki og núna, eftir þessar breytingar, ef Útlendingastofnun finnst að þú eigir að vera einhvers staðar annars staðar. Það er ekki krafa um að viðkomandi hafi einu sinni heimild til komu og dvalar í ríkinu eða að ríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir nota bene athugasemdir við þegar hún gerir athugasemd við þetta ákvæði. Og í ofanálag er síðan verið að þrengja undantekningar, þrengja tímafresti sem voru settir á stjórnvöld til þess að alla vega ákveða innan 12 mánaða hvort þau ætli að taka mál til meðferðar eða ekki. Það á líka að eyðileggja það. Þannig að það er bæði verið að auka heimildir stjórnvalda til að vísa málum frá og gefa þeim lengri tíma til þess að gera það. Skilvirkni? Nei. Sparnaður fyrir ríkissjóð? Nei. Þetta er bara rugl. Ég segi já við því að fella þetta allt í burtu.