153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Til þrautavara er hér lagt til að c-liður 8. gr. frumvarpsins falli brott. Hann fjallar um það að tafir sem eru á ábyrgð annarra, sem annaðhvort með athöfnum sínum eða athafnaleysi hafa valdið því að umsókn er lengur en lögmæltur frestur kveður á um þannig að hún verður að fá efnismeðferð, tafir á ábyrgð annarra en umsækjandans sjálfs geti orðið þess valdandi að frestirnir gildi ekki. Viðkomandi fái ekki efnismeðferð. Það er nefnilega að mati stjórnarliða ekki hægt að láta það líðast, eins þau orða það, að fólk misnoti þessa reglu. Það er orðið sem þau nota, að það misnoti þessa reglu og tefji mál sín sjálfkrafa til að fara inn í þetta ferli. Þeim finnst þetta bara ósköp eðlilegt og hér var tekið fram í atkvæðaskýringum við 2. umr. að þetta ætti bæði við um fullorðna og börn þannig að börn verði látin líða fyrir það (Forseti hringir.) að forráðamaður eða lögfræðingur eða bara einhver sem kemur að máli þeirra (Forseti hringir.) með athöfnum eða athafnaleysi skerði mál þeirra. Ríkið á að ganga gegn rétti barna (Forseti hringir.) til sjálfstæðrar málsmeðferðar. Við verðum að fella þetta brott.