153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:08]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Hér er verið að setja inn ákvæði sem í raun og veru breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það er auðvitað þannig að þingnefndir geta kallað eftir því við ráðherra að þeir komi hvenær sem er til þess að gera grein fyrir afstöðu sinni í því sem snýr að þeirra málaflokki í einstökum málum og þær heimildir nefnda eru nú ítrekað nýttar eins og við þekkjum öll. Það er því í raun og veru sjálfsagt mál að styðja þetta ákvæði þó að það sé óþarft. Fyrst átti reyndar að reyna að koma því þannig fyrir að hér yrði skýrslugjöf beint inn í sal til þingmanna, en það er búið að draga úr því og setja það inn með þessum hætti.

Þetta er auðvitað sett inn til þess að búa til þennan leikþátt fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, eins og aðrar breytingartillögur sem hér eru, til að þeir geti einhvern veginn selt það út á við að þeir hafi breytt einhverju í málinu í veigamiklum atriðum. Þetta eru allt sjálfsagðar breytingar sem breyta í raun og veru samt ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það er sjálfsagt og eðlilegt að styðja þetta en við skulum ekki halda að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé hér að breyta miklu efnislega.