153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er auðvitað þannig að þingnefnd getur kallað ráðherra til sín hvenær sem er til að ræða hvernig gengur í málaflokknum, líkt og hv. þm. Sigmar Guðmundsson benti á. Mér þótti það svolítið hjákátlegt þegar ég sá á hvaða tímapunkti í umræðunni þessi breytingartillaga kom fram. Hún kom þegar maður fór að sjá það á þingmönnum meiri hlutans að þau fóru að hafa einhverjar áhyggjur af þessu: Ókei, kannski er eitthvað til í því sem Rauði krossinn er að segja, kannski er eitthvað til í því sem Flóttamannastofnunin er að segja. En prófum þetta samt, sjáum hvað gerist. Ætli þessar skelfilegu hrakspár allra þessara aðila sem gagnrýndu þetta frumvarp verði að veruleika eða ekki? Við skulum bara sjá til. Prófum að brjóta á flóttafólki og sjáum hvernig gengur. Ég sit hjá.