153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er að mörgu leyti áhugavert að heyra hneykslan stjórnarþingmanna. Í hvaða heimi lifið þið? Það er hárrétt sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir var að segja. Það er refsivert samkvæmt hegningarlögum að koma fólki ekki til bjargar þegar það er í neyð. Um það snýst bráðaheilbrigðisþjónusta. Hún snýst um að ef þú verður fyrir bíl og þér er að blæða út úti á götu þá færðu aðstoð. Það er refsivert nú þegar að gera það ekki. Hvers vegna þarf að árétta það í lögum? Mér finnst þetta góður punktur sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom með hérna; þetta lýsir viðhorfunum sem eru í þessu frumvarpi til útlendinga, til fólks á flótta. Þetta er ömurlegt. Þetta er ömurlegt í alla staði og ég veit ekki í hvaða heimi þið búið, að halda að þetta sé einhver frábær breyting og að Vinstrihreyfingin – grænt framboð telji sig geta stært sig af þessu. Þetta er ótrúlegt, með ólíkindum.