153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[20:52]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að taka upp reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu. Ég legg mikla áherslu á að það sé mikilvægt að við séum ekki að fara að innleiða einhverjar séríslenskar reglur, að þessi flokkun sé samanburðarhæf. Þá vil ég sömuleiðis fá að ítreka það sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefnir hér, að rótin að þessu regluverki er Parísarsáttmálinn og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Það má gagnrýna að bæði kjarnorka og gas hafi verið fellt þarna undir en af fréttum að dæma lögðu Þjóðverjar áherslu á að gasið væri þarna undir en sjónarmið varðandi kjarnorku komu frá Frökkum. (Forseti hringir.) Ég tel eðlilegt að þetta fari aftur til nefndar og við munum skoða málið. En ég ítreka að þetta verður að vera sambærilegt og í Evrópu.