Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

aðgangur að heilbrigðisþjónustu.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð nú að viðurkenna að þegar hún sagði að hún gæti tekið undir ályktun frá landsþinginu, ég datt eiginlega út eftir það því að mér fannst hv. þingmaður vera að opna á svo áhugaverðan möguleika. Ég bara þakka fyrir það. En í stuttu máli vil ég nú segja að það þarf engum að koma á óvart að landsfundur Vinstri grænna álykti til stuðnings hins opinbera heilbrigðiskerfis. Það er auðvitað það sem við höfum unnið að, m.a. í okkar tíð í heilbrigðisráðuneytinu. Þá lögðum við sérstaka áherslu á að styðja betur við annars vegar heilsugæsluna sem slíka og hins vegar auðvitað sjúkrahúsin og heilbrigðisstofnanirnar úti um land. Á sama tíma var lögð mikil áhersla á að lækka kostnað almennings. Það voru stigin stór skref í því til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga með það að markmiði að koma henni á par við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Nú er það svo, eins og hv. þingmaður þekkir hins vegar, að við erum auðvitað með ákveðna þætti í okkar heilbrigðiskerfi — þingmaðurinn nefnir sérstaklega einkareknar heilsugæslustöðvar sem raunar eiga ekki að greiða sér út arð af því að um það var fjallað sérstaklega í ályktuninni og hluti af því þegar lagt var af stað í þá vegferð var að taka fyrir það. Það hefur ekki verið gert alls staðar í heilbrigðiskerfinu og mér finnst það vera umræða sem mætti vel taka hér upp á Alþingi, hversu æskilegt það er að verið sé að greiða arð út úr grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu. Það finnst mér vera risastór spurning. Það væri kannski eitthvað sem áhugavert væri að ræða við hv. þingmenn.

Hvað þýðir ályktunin? Hún þýðir í raun og veru bara nákvæmlega það að við leggjum áfram höfuðáherslu á að hið opinbera heilbrigðiskerfi sé miðlægt í okkar heilbrigðisþjónustu, þannig á það að vera, á sama tíma og við erum að sjálfsögðu meðvituð um að hlutar heilbrigðiskerfisins eru reknir með samningum í gegnum sjúkratryggingar og það skiptir miklu máli að setja skýrar leikreglur um þá samninga, t.d. þegar kemur að arðgreiðslum.