Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

staða ríkisfjármála.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það kann vel að vera að hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni finnist mín svör léleg en ég held að hann sé í allharðri samkeppni við þá sem hér stendur um slappa innkomu í þennan ræðustól. Vaxtahækkun Seðlabankans — afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar? (SDG: Já.) Hv. þingmaður hefur greinilega ekki fylgst með verðbólguþróun í samanburðarlöndum okkar og það er alveg rétt að verðbólgan virðist ætla að verða þrálátari hér en annars staðar. Það eru ýmsar ástæður fyrir því en að kenna því um að við höfum verið að auka útgjöld, m.a. til heilbrigðismála, m.a. til menntamála, til samgöngumála, það er auðvitað fjarri öllu lagi.

Hv. þingmaður talaði um að stækka báknið sem er auðvitað gríðarleg einföldun á því þegar við erum að horfa í það í hvað við erum að verja skattfé almennings. Það er ekki eins og við séum að verja því í að stækka báknið þegar við einmitt tökum afstöðu til þess, sem kallað hefur verið eftir hér úr þessum sal, að gera betur í nákvæmlega þessum málaflokkum. Ég vísa þessari staðhæfingu (Forseti hringir.) um að vaxtahækkanir séu bein afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar bara á bug, (Gripið fram í.) herra forseti.