Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fiskeldi í Seyðisfirði.

[15:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt, áður en lengra er haldið, að fara aðeins yfir það hvað skipulag er, og hvað er þá strandsvæðisskipulag, hvernig er það unnið og hvert er verkefni ráðherrans sem staðfestir slíkt skipulag. Af því að hv. þingmaður orðaði það þannig að það væri hæstv. ráðherra sem væri að setja hér allt í uppnám, þá er það einfaldlega ekki þannig. Skipulag er jú bara plan, áætlun um hvað sé hægt að gera og staðfesting ráðherra byggist auðvitað fyrst og fremst á því að allir ferlar hafi verið með í ráðum og unnið hafi verið rétt o.s.frv. Það væri alveg sérstök ákvörðun ráðherra að neita að staðfesta skipulag, hvort sem er á landi eða í þessu tilviki strandsvæðisskipulag, vegna þess að skoðun ráðherrans væri allt önnur heldur en þeirra sem eru búnir að vinna þetta sameiginlega, bæði heimamenn, ríkið og aðrir aðilar, í samráði við eins marga og hægt er.

Því er skipulag á landi, eins og hv. þingmaður þekkir, nákvæmlega eins og strandsvæðisskipulag. Það er áætlun um hvað sé hægt, eftir því hvaða hugmyndir koma fram. Það er ekki ákvörðun um tiltekna byggingu á einhverjum mannvirkjum eða ákvörðun um uppbyggingu á einhverri tiltekinni starfsemi. Það er plan viðkomandi samfélags um það hvað hægt sé að gera. Í mörgum tilfellum verður það skipulag á landi aldrei að veruleika. Slíkt skipulag er til úti um allt land, þar sem menn hafa lagt í áratugavinnu, og hefur verið samþykkt og staðfest vegna þess að það var unnið rétt, en síðan fer það aldrei í framkvæmd.

Það eru einfaldlega aðrir aðilar sem taka ákvörðun um hvað verður um strandsvæðisskipulagið varðandi uppbyggingu fiskeldis í Seyðisfirði heldur en sá sem staðfestir skipulag sem ráðherra skipulagsmála.