Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fiskeldi í Seyðisfirði.

[15:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega þannig að það þarf að fara að lögum í þessu landi og allt það sem hv. þingmaður taldi hér upp hefur ekki lagastoð til þess að grípa með óeðlilegum hætti inn í. Það er hins vegar þannig að það hefur verið samþykkt áður uppbygging á ýmsum fjörðum sem þetta svæðisskipulag tekur tillit til, ekki bara á Seyðisfirði, og það kallar á að þær stofnanir sem hafa því miður kannski ekki sinnt hlutverki sínu fram til þessa setjist yfir borðið núna og skoði hvernig það sé hægt að þróa það. Skipulag er einfaldlega ekki ákvörðun um uppbyggingu heldur grundvöllur þess að hægt sé að taka ákvörðun um eitt eða annað og það er það sem skipulagsráðherrann staðfesti eftir mikla vinnu svæðisskipulagshóps sem var sammála um að þetta væri það sem þeir voru að leggja til, hóps sem var sammála um, hv. þingmaður, að þetta væri það sem ætti að leggja til. (Forseti hringir.) Ráðherrann staðfesti þá vinnu. (Forseti hringir.) Það er algjörlega önnur ákvörðun hvort menn færu síðan í uppbygginguna sjálfa.