Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

birting greinargerðar um sölu Lindarhvols.

[15:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að rifja upp ágæta ræðu hæstv. forsætisráðherra frá 2016 í umræðu um sölu á eignum sem komu frá slitabúum föllnu bankanna en þar segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Í yfirlýstum markmiðum laganna var talað um að við umsýslu, fullnustu og sölu eigna skyldi félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Hagkvæmni merkti þar að leita skyldi hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignina. Í nefndaráliti meiri hlutans voru þessi sjónarmið áréttuð og var lögð sérstök áhersla á að ráðherra myndi árétta í samningum við félagið að stjórnendur þess og starfsmenn viðhefðu vönduð og fagleg vinnubrögð þar sem um væri að ræða opinberar eignir, enn fremur að ef tvær leiðir stæðu til boða við ráðstöfun á eignum skyldi velja þá leið sem væri gagnsærri.“

Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra upplýsingalaga, sem fer með málefni um upplýsingarétt almennings, fer með málefni sem varða upplýsingamál, úrskurðarnefnd um upplýsingarétt, um skoðun og skilning ráðherra á birtingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda vegna Lindarhvols. Það kemur skýrt fram í gögnum málsins að greinargerðin var send Alþingi, fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisendurskoðanda með vinnuskjölum. Alþingi var send greinargerðin og ríkisendurskoðandi fékk greinargerð og vinnuskjöl. Nú veltir maður því fyrir sér hver skoðun ráðherra er, með tilliti til upplýsingalaga, hvort það eigi, með tilliti til gagnsæis, að birta þessa greinargerð eða ekki.