Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

birting greinargerðar um sölu Lindarhvols.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Almennt hef ég verið þeirrar skoðunar að stjórnvöld, hvort sem það er framkvæmdarvald, löggjafarvald eða dómsvald, eigi að birta meira af upplýsingum en minna. Til dæmis í nýjum upplýsingalögum, þau eru auðvitað ekkert sérstaklega ný lengur en frá árinu 2019, og ég lagði fram frumvarp til laga í þeim efnum, er sett ákvæði um frumkvæðisskyldu á stjórnvöld um að birta upplýsingar. Í þeim lögum var gildissviðið útvíkkað þannig að það næði einnig til stjórnsýslu Alþingis, eins og hv. þingmaður þekkir, eins og er svo afmarkað nánar í þingskapalögum og reglum sem forsætisnefnd setur á grundvelli þessara laga. Síðar hafa verið settar þessar reglur á grundvelli þessara laga.

Nú hefur það komið fram, án þess að ég sé inni í þessu máli frá degi til dags, í lögfræðiáliti til forsætisnefndar, sem einmitt var úrskurðað af úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ætti erindi við almenning, þar er kveðið á um sem sagt, eins og ég skil þetta mál, að það sé ekki óheimilt að birta þetta gagn. (Gripið fram í.) — Já, einmitt. Ég skil alveg þau sjónarmið að það geti verið villandi að birta gögn sem eru vinnugögn en þá er væntanlega hægt að útskýra hvað er villandi í þeim gögnum þegar þau hafa verið send úr húsi því það er auðvitað það sem upplýsingalögin kveða á um, að þegar slík gögn eru send úr húsi þá í raun fellur niður skilgreiningin á því að þetta sé vinnugagn. Um það skilst mér að deilan hafi m.a. staðið; er þetta vinnugagn eða ekki? Og sé þetta vinnugagn, sem þá kannski mögulega hefði ekki átt að senda úr húsi, (Forseti hringir.) er þá ekki hægt að skýra hvað nákvæmlega í gagnrýninni er þess eðlis að það sé villandi?