Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

hafrannsóknir og nýting sjávarauðlindarinnar.

[15:50]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég ætla að reyna að halda mig við kjarna málsins sem snýst um utanumhald utan um þá vinnu sem er í gangi núna, sem er endurskoðunarvinna, sem hv. þingmaður nefnir, undir yfirskriftinni Auðlindin okkar þar sem við erum að freista þess að ná breiðu samtali allra þeirra aðila sem hafa þekkingu og aðkomu að einhverju leyti að sjávarútvegi í þessu landi.

Ég ætla ekki að svara því sem ekki er svaravert, sem snýst um að ég gangi erinda einhverra tiltekinna aðila, því að það er ekki boðlegur málflutningur hv. þingmanns hér. En ég ætla að segja það, af því að þingmaðurinn spyr sérstaklega um samtöl við LS, að LS hefur fengið alla þá fundi sem þau hafa óskað eftir. En þessi ráðherra sem stendur hér er ekki þannig ráðherra að honum sé stýrt af hagsmunaaðilum. Það er algjörlega á hreinu og ég frábið mér slíkar yfirlýsingar.

Varðandi síðan endurskoðunarvinnuna; það sem við viljum sjá að hún leiði af sér er að við séum að byggja uppbyggingu þessarar nýtingar á sjávarauðlindinni á vísindum, á vönduðum vinnubrögðum, á þekkingu og á ábyrgð, á samfélagslegri ábyrgð. Við viljum sjá að þær bráðabirgðatillögur sem núna eru til úrvinnslu, þær 60 sem hv. þingmaður hefur væntanlega séð og kynnt sér, verði grundvöllur næsta skrefs. (Forseti hringir.) Ég hef væntingar til þess að hv. þingmaður, rétt eins og fulltrúar (Forseti hringir.) Flokks fólksins í vinnunni, gangi með opin augun að þeirri vinnu og viljugur (Forseti hringir.) til þess að freista þess að ná meiri sátt í þessum viðkvæma málaflokki en nú er.