Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

Samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn.

[16:24]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Umboðsmaður Alþingis birti um daginn álit þar sem hann taldi ákvörðun dómsmálaráðherra um að bera ekki reglugerðarbreytingu um rafvarnarvopn undir ríkisstjórnina ekki hafa verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Sambærileg álit umboðsmanns hafa hingað til ekki þótt merkilegar fréttir ef skrifaðar hafa verið fréttir um þau yfir höfuð. Ekki minnist ég þess að haldnar hafa verið sérstakar umræður á Alþingi um þau álit sem féllu um stjórnarhætti ríkisstjórnarinnar hér á árunum 2009–2013, sem þó voru fimm talsins. En aldrei þessu vant og þvert á allar spár hefur stjórnarandstaðan haft uppi gífuryrði og digurbarkalegar upphrópanir sem rétt er að staldra við.

Í fyrsta lagi hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar haldið því fram að niðurstaða umboðsmanns sé sú að dómsmálaráðherra hafi gerst brotlegur við lög og stjórnarskrá. Hið rétta er að umboðsmaður heldur því hvergi fram og segir meira að segja sjálfur, með leyfi forseta, að hann telji ekki „tilefni til að draga í efa stjórnskipulega heimild dómsmálaráðherra til umræddrar ákvörðunar eða gildi athafna hans í því sambandi“. Þá kemur fram í greinargerð með lögum um Stjórnarráð Íslands að það sé háð mati hverju sinni hvaða mál teljist mikilvæg í skilningi laganna og það mat sé í höndum viðkomandi ráðherra hverju sinni. Þar liggur kjarni málsins. Ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald og ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þetta svigrúm til mats og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum innan sinna málaflokka samkvæmt stjórnarskrá. Í þessu máli er dómsmálaráðherra viðkomandi ráðherra, ekki forsætisráðherra og svo sannarlega ekki þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Dómsmálaráðherra hefur rökstutt með ítarlegum hætti hvers vegna umrædd reglugerðarbreyting teljist ekki mikilvægt stjórnarmálefni en ekki liggja hins vegar fyrir haldbær rök fyrir því að svo sé. Þá hefur því m.a. verið haldið fram að um alvarlegar aðfinnslur umboðsmanns hafi verið að ræða. Hið rétta er að þetta eru léttvægustu aðfinnslur sem umboðsmaður getur gert. Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis getur umboðsmaður látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög, siðareglur eða vandaða stjórnsýsluhætti. Einu aðfinnslurnar sem umboðsmaður getur gerst sem ekki fela í sér að lög eða reglur hafi verið brotnar eru einmitt þær að ekki hafi verið um vandaða stjórnsýsluhætti að ræða. Í slíkum aðfinnslum felst ekkert annað en að umboðsmaður telji að heppilegra hefði verið að stjórnvald hefði staðið öðruvísi að málinu. Þá er áhugavert að umboðsmaður byggir niðurstöðu álitsins á þeirri skoðun hæstv. forsætisráðherra að um áherslubreytingu hafi verið að ræða og að dómsmálaráðherra hafi virt að vettugi ósk forsætisráðherra um að málið yrði rætt í ríkisstjórn áður en það væri afgreitt og hrint í framkvæmd. Ekki innir umboðsmaður forsætisráðherra frekar eftir því hvers vegna hún telji að um áherslubreytingu sé að ræða og því áhugavert að niðurstaða álitsins sé byggð á þeirri skoðun.

Umboðsmaður horfir einnig til þess að dómsmálaráðherra hefði verið í lófa lagið að fresta framkvæmd málsins þar til það hefði verið rætt í ríkisstjórn. Ekki er mér kunnugt um að óskað hefði verið eftir því við dómsmálaráðherra að fresta framkvæmd málsins, en hér bið ég auðvitað hæstv. forsætisráðherra að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.

Að öllu framansögðu er ljóst að engar af þeim fullyrðingum stjórnarandstöðunnar um að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við reglugerðarbreytingarnar standast skoðun og sér í lagi ekki lögfræðilega skoðun. Þessi umræða er auðvitað bara aum tilraun til að mótmæla skýrri pólitískri sýn dómsmálaráðherra án þess þó að fara beint í málið.