Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

Samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn.

[17:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Undir lok síðasta árs undirritaði dómsmálaráðherra breytingu á reglugerð sem veitti lögreglu heimild til að bera rafbyssur. Ráðherra greindi frá ákvörðun sinni í innsendri grein í Morgunblaðinu og hafði þá þegar undirritað reglurnar. Reglugerðarbreytingin var þannig ekki rædd við ríkisstjórnarborðið áður en hún var gerð. Gert er ráð fyrir því að lögreglumenn og lögreglukonur verði með rafbyssur í fórum sínum á seinni hluta þessa árs eða í upphafi þess næsta. Þetta er staðan. Íslenskt samfélag hefur breyst mikið síðustu ár og áratugi og lögreglan hefur í starfi sínu ekki farið varhluta af þeim breytingum. Mér finnst þetta skref, hin svokallaða rafbyssuvæðing lögreglunnar, ekki óvarlegt að fengnu auknu eftirliti með lögreglunni. Við getum ekki sniðgengið óskir lögreglu í þessu sambandi þegar við á sama tíma ætlumst til þess að lögreglan fari inn í erfiðar aðstæður á vettvangi og þeim aðstæðum fer sannarlega ekki fækkandi, því miður.

Við getum hins vegar heldur ekki horft fram hjá því að á meðal helstu einkenna íslensks samfélags hefur verið sú staðreynd að lögreglan okkar er almennt óvopnuð í sínum daglegu störfum, að vopn eru ekki sýnileg. Ég veit að við höfum mörg verið býsna stolt af þessu einkenni sem er rótgróið í samfélagi okkar, rótgróið í menningu okkar. Það er þess vegna sem þetta virðingarleysi svíður, þetta virðingarleysi sem dómsmálaráðherra sýnir þingi og borgurum þessa lands með því hvernig ákvörðunin er tekin. Þetta verklag af hálfu dómsmálaráðherra er til þess fallið að setja málið í einhvers konar svart/hvítt frekju- eða yfirgangssamhengi í stað þess að hann sýni samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn, þinginu, íslensku samfélagi og íslenskum almenningi sjálfsagða virðingu. Það mætti jafnvel ganga lengra og segja að getu- eða áhugaleysi ráðherra á að eiga efnislega og málefnalega umræðu um þessa ákvörðun, um þetta lokaskref, sé til vitnis um skort á verkstjórn eða ábyrgðartilfinningu.

Frú forseti. Dómsmálaráðherra segist ekki hafa þurft að gera neitt öðruvísi en hann gerði og hann virðist jafn blindur á mikilvægi þess að sýna skoðunum annarra virðingu og á það hvað góðir stjórnarhættir fela í sér, blindur á mikilvægi þess að ríkisstjórnin komi samstiga fram þegar um er að ræða ákvörðun sem breytir ásýnd þjóðar til framtíðar, ekki til að vera sammála heldur samstiga í ljósi þess að málin hafi verið rædd. Með þetta er forsætisráðherra óhress, segir að fyrst hefði þurfti að ræða málið í ríkisstjórn því að þetta sé stefnubreyting. Dómsmálaráðherra er ósammála forsætisráðherra, þetta sé ekki stórvægileg breyting. Umboðsmaður Alþingis er ósammála dómsmálaráðherra, segir vinnubrögð dómsmálaráðherra við breytingar á reglugerð um rafbyssur ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti; telur ráðherrann hafi gerst sekan um samráðsleysi við ákvörðun um að vopna lögreglu rafbyssum, breytingu sem hafi verið mikilvægt stjórnarmálefni og slík stjórnarmálefni beri að ræða við ríkisstjórnarborðið samkvæmt stjórnarskrá. Dómsmálaráðherra er ósammála umboðsmanni Alþingis, skilur ekki á hvaða vegferð umboðsmaðurinn er, því að þetta sé ekki stór ákvörðun, finnst umboðsmaður Alþingis jafnvel alveg á mörkunum. Forsætisráðherra er svo ósammála dómsmálaráðherra og sammála umboðsmanni Alþingis. En málið hefur engin áhrif á traust forsætisráðherra til dómsmálaráðherra. Þá situr eftir spurningin, frú forseti: Ef ekki svona atburðarás, hvað hefur þá raunveruleg áhrif á traust til æðstu ráðamanna?